Unix
Unix eða UNIX er hópur stýrikerfa fyrir tölvur, það fyrsta skrifað á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldarinnar á Bell ransóknarstofum bandaríska símarisans AT&T. Seinna komu svo fram fleiri útgáfur, bæði frá ýmsum fyrirtækjum sem og áhugamönnum undir flaggi GNU hreyfingarinnar.
Fyrsta UNIX-stýrikerfið var skrifað hjá AT&T Bell Labs í Bandaríkjunum á árunum 1960 til 1970. Það var hannað með það í huga að hægt væri að flytja það frá einum vélbúnaði yfir á annan (e. portable), að margir notendur gætu notað sömu tölvuna í einu, hver frá sinni útstöð (fjölnotendatölva, e. multi-user computer), og að notandi gæti notað mörg forrit samtímis og skipt á milli þeirra án þess að vinnsla þeirra stöðvaðist (fjölverkavinnsla, e. multi-tasking).
Sum UNIX-stýrikerfin er hægt að nota á tölvum með örgjörvum frá Intel og AMD og eru ætluð til notkunar fyrir bæði einstaklinga og netþjóna. Dæmi um slík stýrikerfi eru Linux og BSD. Eitt UNIX-stýrikerfið, Mac OS X frá Apple, er nánast eingöngu í einkanotkun. Flest önnur eru hins vegar gerð fyrir mjög dýran og sérhæfðan vélbúnað í net- eða gagnagrunnsþjónum. Dæmi um slík stýrikerfi eru AIX frá IBM og HP-UX frá HP.
Þess ber reyndar að geta að nokkur munur er á því hvernig hugtakið "UNIX" er notað. Sumir nota það í víðum skilningi um nánast öll stýrikerfi önnur en Windows en aðrir nota það aðeins um nokkur tiltekin stýrikerfi sem uppfylla staðalinn Single UNIX Specification, sem finna má á vefsíðu The Open Group. Sá staðall útlistar hvernig UNIX-stýrikerfi skuli búin til þannig að hægt sé að skrifa forrit sem virka á þeim öllum. Samkvæmt þessari þröngu skilgreiningu er Linux til dæmis ekki UNIX-stýrikerfi en er þó það sem kallað er UNIX-legt (e. UNIX-like).
UNIX-staðallinn er í raun safn annarra staðla, en helstir þeirra eru POSIX, staðall um stýrikerfisviðmót, og ISO C, staðall um C-forritunarmálið. Lesa má nánar um POSIX-staðalinn í svarinu Hvað er POSIX? eftir Hjálmtý Hafsteinsson.
Í ljósi þess að fyrstu Windows-stýrikerfin komu á markað á árunum 1985 til 1995, eða um 25 til 35 árum eftir að fyrstu UNIX-stýrikerfin voru búin til, gætu lesendur velt því fyrir sér hvers vegna Windows hafi slíka yfirburðastöðu, en um 95% lesenda Vísindavefsins nota einhverja útgáfu af Windows eins og lesa má um í svarinu Hver eru aðalstýrikerfin í tölvum í dag? eftir EÖÞ og ÞV. Því er til að svara að þó svo að Windows hafi yfirburðastöðu á einkatölvum þá er raunin allt önnur hvað varðar netþjóna og gagnagrunnsþjóna. Þar er Windows einungis eitt af mörgum stýrikerfum sem eru notuð og UNIX-stýrikerfin eru langalgengust. Upphaflega var Windows ekki hannað sem fjölnotendastýrikerfi né heldur til að styðja fjölverkavinnslu og því var ekki hægt að nota það á netþjónum. Rökstyðja má að Windows hafi ekki orðið raunhæfur kostur fyrir netþjóna fyrr en með útgáfu Windows 2000.
Unix kerfi eru hönnuð sem fjölnotenda- og fjölforrita-umhverfi sem auðvelt er að breyta fyrir mismunandi vélbúnað. Einkenni þeirra eru einkum einfaldar textaskrár notaðar alls staðar sem hægt er, skipanalína, skráarkerfi með möppuhugtak og framsetning vélbúnaðar og forritasamskipta sem textaskráa.